09 February 2013

Ljósmyndir út um allt


Ég er með ljósmyndir út um alla íbúð hehe og í alls konar útfærslum.  

Hér er ég með myndir af yngri stelpunni minni og eldra barnabarni mínu
 í nokkrum alveg eins römmum, raðaðar upp og niður....eða niður og upp?

Einu sinni raðaði ég sömu myndunum svona upp, en það var í gamla daga ;)

Frístandandi myndarammar (skilrúm) sem ég keypti í Ljósmyndavörum en þeir eru líka til sölu á mörgum framköllunarstöðum. Ég notaði svokallaðan scraphníf til að fá myndirnar jafnstórar og þráðbeinar en einnig er hægt að klippa þær. Svo límdi ég þær saman tvær og tvær á bakhliðinni og notaði límdoppur ( fæst í skrappverslunum og framköllunarstöðum) til að tilla þeim í hvern ramma fyrir sig. Ég er mjög hrifin af þessu skilrúmi, því að hægt er að snúa hverri mynd :o)

 Sama skilrúm, nema að hér er ég búin að vefja strigagarni utan um rammana.
  Kemur líka skemmtilega út.


Hér er ein lausn sem ég notaði fyrir nokkru..... Ég keypti mdf plötu í byggingarvöruverslun og spreyjaði hana eldrauða. Svo raðaði ég myndunum upp og mældi hvar hver og ein mynd ætti að vera. Því næst boraði ég 12 göt fyrir 12 myndir + 3 göt til að hengja plötuna upp á vegginn (passa bara að hafa þau göt á bak við einhverjar myndir svo þau sjáist ekki).



Það er mun þægilegra að fá myndirnar beinar ef þær eru hengdar upp á mdf heldur en beint á steininn. Svo njóta þær sig lika oft betur á litlum fleti en stórum vegg :o)

 Gamlar myndir af mér í römmum frá "systrunum" í Smáralind. 
 Þessa hillu lét ég útbúa fyrir mig úr plexigleri. 


Myndaveggur af ættingjum.
 Ég valdi að hafa alla rammana eins en það er líka töff að hafa þá í 
mörgum stærðum og gerðum. Kartonin utan um myndirnar keypti
 ég hjá innrömmunarfyrirtæki og lét sérsníða eftir máli.
  Notaði ég Dymo vél til að prenta út nöfn, fæðingardaga og dánardaga ef það átti við.
 Svo er sniðugt að nota rub-ons stafi sem fást í föndurverslunum nú eða bara skrifa :o)

Af hverju ekki að nota "dauð" horn fyrir svona ramma? 
Þetta eru Umbra rammar og fengust í Húsgagnahöllinni og líka í Tekk vöruhús. 
Það er líka sniðugt að nota t.d. þrjá eða fleiri viðarramma að eigin vali,
 bora göt og festa saman með vír á milli :o)

Áðan sýndi ég ykkur myndir af mér á plexiglershillu en hér eru þær komnar inn í skáp.    
Ég setti lýsingu inn í skápinn.  Þannig er að hillan er laus inn í skápnum 
og festi ég þar til gerðar festingar (ekkert mál, bara að skrúfa) innan á hlið hillunnar
 sem snýr að baki skápsins. Svo boraði ég lítið gat á bakið og tróð snúrunni í gegn.
 Ástæðan fyrir að ég setti lýsinguna á þennan stað en ekki annan
 er að með þessu móti fæ ég ljósið til að skína um allan skápinn.  Kósý, kósý, kósý


 Hér tengdi ég myndir saman með smellum 
sem heita "fotoclips" sem fást í Hrím

 Þessar fotoclips smellur eru algjör snilld!  
Uppáhalds"kertastjakinn" minn eru ljósmyndir
 sem ég klemmdi saman til að mynda hólk.  
Innan í stjakanum er lukt sem er í raun barnamatakrukka 
sem hefur það hlutverk að hýsa sprittkerti.