30 December 2015

Gleðileg jól :)


Ég hef aldrei verið eins sein að skreyta eins og þessi jól.
En betra er seint en aldrei.
Er reyndar orðin ofboðslega leið á gamla skrautinu,
 þessu einnota æ skiljiði?
 Því hef ég verið dugleg að kaupa nýtt þegar það fer á helmings afslátt :) 


Þessi smái hefur fylgt mér frá því ég var oggu oggu lítil, 
svona hálfgerður verndargripur jólanna :)

Krúttleg aðventukerti frá Bónus.

Box frá Rúmfó.....

....en ég er hrifnust af glerkrukkunum frá Ikea til að hýsa mínar smákökur ;)

Þennan gerði ég fyrir fyrir ótal mörgum árum.

Var nú að hugsa um að láta þetta jólatré duga.....

....en lét undan þrýstingi og setti upp fallega svarta jólatré mitt.
  Enda hefðu gjafirnar ekki komist undir hitt hehe :)

Einn bætist við á hverju ári frá þessari fjölskyldu.

Þessi voru ættleidd frá Rúmfatalagernum :)

Verk eftir mig t.h. 
Er alveg afskaplega hrifin af jólasveinum 
með stórar húfur eins og parið í miðjunni

Hugljúf mynd á skjánum og kósý í kring.

Fjallmyndarlegur þessi ;)

 Hr Krúttmundur í öruggri hönd :)

Gleðilega hátíð öll sömul og takk fyrir liðna tíma <3










25 October 2015

Míns átti stórafmæli og annað ótengt


Munið þið þegar ég "filmaði" eldhúsinnréttinguna mína svarta?
Þá fannst mér gráu flísarnar á milli skápanna of dökkar
 en hafði ekki hugmynd um hvað ég vildi setja í staðinn.
Nú en eins og svo oft áður þá fann ég lausn sem ég er bara mjög sátt við :)

Ég ákvað af veggfóðra yfir flísarnar.....


 ....os sá sko ekki eftir því!
Veggfóðrið fékk ég í Litaveri.
Akkúrat það sem ég var að leita eftir, svona "hrátt" útlit.

En yfir í annað!
Um daginn átti ég afmæli jíbbíjei!

 Ég fékk margar flottar gjafir þar á meðal 
nýja myndavél frá kæró sem hefur verið lengi á óskalista.
Svo eftir ljósmynda-námskeið sem krakkarnir gáfu mér munu myndirnar
 á þessari síðu vera mun flottari en þær eru í dag :)

 Ég fékk líka ótrúlega flotta blaðagrind frá krökkunum sem er frá Hrím, 
svo framvegis fá hýbýlablöðin að vera sjáanleg, ekki ofan í skúffu eins og áður :)

Það eru ekki bara börn sem hafa gaman af leikföngum nei nei nei!
Ég kolféll fyrir þessum sparkbíl og lét það eftir mér að kaupa einn slíkann.
 He he ein fullorðin keypti sér leikfangabíl til skrauts
 fyrir gjafabréf frá vinnufélögunum :)

Að lokum langar mig að sýna ykkur fallegt ljós frá Bykó úr kopar, 
en í stað þess að hengja það upp þá læt ég það liggja á borði í stofunnni.

EN......
það allra síðasta sem ég sýni ykkur er góð lausn á rými
 sem myndast oft á bak við sófa.
Hér hef ég hengt upp Lack-hillu frá Ikea rétt fyrir neðan sófabrún.
Það er líka oft vöntun fyrir skrautmuni :)








04 October 2015

Löngu gerðir hlutir ....í þrennu :)

Síðasta færsla frá mér (filmuð eldhúsinnrétting) sem var nú ekkert slor, 
setti margt annað á frest eins og að henda inn eldri unnum verkum.
Nú er smá pása á milli verka hehe ;)


Eldhúsborð sem ég gerði upp á einni klukkustund eða svo.
Aðalvinnan var að ná drullunni af enda var borðið búið að þvælast um allar trissur
 þar til það endaði í Góða Hirðinum og komst svo undir mínar hendur.

Hókus pókus
hvít filma og málið dautt!

Hefði viljað hafa tekið mynd af þessu slökkvitæki "before" 
en ég steingleymdi því!
En ég sem sagt fann það úti í einum af okkar sunnudagsbíltúrum í sumar.
Það er yfir 30 ára gamalt.
Eftir hreinsun þá límdi ég póstkort frá Línu Rut á kútinn og núna
 er þetta eitt af mínu uppáhalds hlutum.
Það þarf ekki mikið til thíhí ;)

 Korktafla sem ég fann eins og svo margt annað í þeim Góða 
var breytt í .......

....vikuplanstöflu!
Ég málaði korkinn og rammann, 
klippti niður sjálflímandi krítartöflu sem fæst í Tiger 
og skrifaði dagana með krítartússi :)

01 October 2015

"Filmuð" eldhúsinnrétting


Ég lét loksins verða að því að endurnýja eldhúsið mitt.
Sú gamla var orðin 12 ára og kjellan alveg komin upp í kok af kremaða litnum.
Þá var bara að bretta upp ermar og hefjast handa við að fá nýtt útlit fyrir lítinn pening.
Enso í Skeifunni seldi mér filmuna. 
 Litaúrvalið þar er stórkostlegt en ég var ákveðin í upphafi að hafa innréttinguna svarta.

 Það er mikið atriði að hreinsa vel áður en byrjað er.  
Fyrst með sterkri blöndu af t.d. Ajax og svo óblandað hreinsiefni (sjá mynd)
 sem Enso seldi mér og tekur alla fitu af yfirborðinu.  
Það er hætta á að filman festist illa á ef ekki er hreinsað vel.

Öll innréttingin var plastlögð með beyki á köntunum.
Filmaði ég plastið en leyfði beykiköntunum að njóta sín.

 Það er eiginlega möst að eiga skurðarmottu og skurðarhníf fyrir svona verkefni.
Ég hefði allavega ekki nennt að klippa allt niður með skærum.  
Svo þarf maður líka að eiga fóðraða sköfu til að þrýsta filmunni niður með.

 Sjá bakhlið skáps en filman nær ca 2-3 cm inn fyrir.


Fyrir og.....
....eftir. 
Glerið efst uppi sem nær
á milli glerskápanna er með lýsingu á bak við.  
Falleg lýsing í rökkvinu sem gerir eldhúsið soldið öðruvísi.

 Ein svona "fyrir mynd" af neðri einingunni.

Skúffurnar tilbúnar :)

 Allar framhliðar af, gamla borðplatan líka og....

 ....ný hvít borðplata sett á í staðinn

 Auðvitað fékk gamli vaskurinn að fjúka fyrir.....

....þennan nýja.

Sú gamla


varð hreinlega sem ný fyrir um 15.000 kr.
Borðplöturnar keypti ég á lagersölu í Ikea og
 og líka vaskinn.

Mér finnst reyndar flísarnar ekki lengur passa svo ég lét saga til stálplötu. 
Hún er nú úti á svölum og fær að veðrast þar og ryðga.  
Þá lakka ég vel yfir með glæru lakki og set á milli :)

Hver sem er getur filmað. 
 Það eina sem þarf að eiga í farteskinu er hreinsiefni,
 sköfu, skurðarbretti, skurðarhníf og SLATTA af þolinmæði.
EF loftbólur myndast ráðlegg ég ykkur að bíða í ca viku með að stinga á þær.
Efnið nefnilega "andar" og hverfa loftbólurnar í flestum tilfellum.
Ef þær afur á móti gera það ekki skal stinga á með títiprjón og þrýsta niður með fingurgómum.





 






12 June 2015

Breytt heimasætuherbergi


Það var svo sannarlega kominn tími á að heimasætan
 fengi nýjan fataskáp með góðu innvolsi enda var sá gamli illa nýttur og of lítill.
En nýr skápur kostar handlegg skal ég segja ykkur.  
Svo við fundum einn nýlegan á frábæru verði á Blandi. 

Alltaf þegar maður ætlar bara að breyta smá vex verkið
 og áður en maður veit af er allt komið á hvolf í allri íbúðinni
 og herbergið endar á því að verða óþekkjanlegt. 

En endanleg útkoma varð STÓRfín og stelpan mega sátt :)

 Gamli skápurinn og .....

....sá nýji.

Skápurinn er með rennihurðum úr svörtu gleri.
Ég lenti í því óhappi að brjóta spegil sem var á sama
 stað og þessi sem er t.h. á myndinni.
  Vona ég að það þýði ekki 7 ára ógæfu :(
En ég fékk annan alveg eins svo samviska mín komst á réttan ról aftur :)

Áður en ég setti upp þennan skáp hafði ég ekkert
 spáð í hvað skipulag skiptir miklu máli að innan og hve mikið er í boði.
Það er endalaust hægt að kaupa og kaupa en sem betur fer þá fylgdu nokkrar hillur,
 fataslár og skúffur með í kaupunum en við bættum við
 buxnahengi, vírkörfu, útdraganlegum hillum og 
plexigler-skilrúmum (sjá Komplement línuna í Ikea).

Nú þar sem við vorum hvort sem er að skipta um skáp 
þá var ekkert því til fyrirstöðu að breyta smá í herberginu.

Skrifborðið mitt fékk nýjan stað,
 ég notaði það hvort sem er aldrei hehe :)

Gamlar hljómplötur frá Góða hirðinum voru hengdar upp til skrauts.

 Flotti plötuspilarinn frá My conseptstore er hér ofan á tröppu frá Ikea.

Plötur sem ég hef átt í fjölda mörg ár
og stelpan hefur smitast af mínum smekk ;)

Hillueiningingarnar koma frá Ikea....en ekki hvað!

 Annað smádót ofan á borðinu hef ég getið til um áður
 á eldri færslum eins og Chaplin lampann og
skálina sem er gerð úr kertastjaka og skál.

Góða helgi elsku þið og gleðilegt sumar :) :) :)