02 July 2018

Filmað í annað sinn :)

Það hefur margt breyst heima hjá mér að undanförnu 
þó ég hafi ekki sett það inn á vefinn í allt of langan tíma.
Eitt er að ég reif 3ja ára gamla filmu af eldhúsinnréttingunni minni
 fyrir filmu sem ég pantaði í Enso í Skeifunni.
  Ástæðan? 
Jahhh þið sjáið kannski á myndunum af hverju ég féll fyrir look-inu!

Ég pússaði upp kantana á hliðunum, bæsaði svarta og lakkaði yfir,
 (voru beykikantar áður).  


 Lítill sem enginn munur á filmunni eða ekta viði, nema þá verðið.
Í heildina kostaði þetta mig 16.000 kr!



Margir hafa spurt mig um frágang inn í hurðunum.  
Hér er ein mynd sem sýnir það og líka að ég límdi eina rönd á hillurnar.


Veggfóður á milli hæða sem hefur b.t.w. dugað í þrjú ár!


Sést ekki vel á myndinni en uppþvottavélin fékk líka filmubút framan á sig.


Bless í bili, kem með meira fljótlega :)

09 July 2017

Sumarbústaðaverkefnið mitt var að steypa....aftur!


Þegar ég breytti í stofunni (fyrir löngu síðan) OG fékk mér nýja sófa
 vantaði allsvakalega eitthvað lítið borð í hornið.  
Borðið beið mín í Ikea en það var alltaf eitthvað sem pirraði mig þegar ég plantaði því í hornið....
ég fann ekki punktinn yfir i-ið!


Stundum borgar sig að hætta öllum pælingum og lausnin blasir við manni alveg óvænt!

Það kemur yfir mig einhver sköpunarárátta þegar ég fer í bústað 
eins skrítið og það hljómar og þá sérstaklega ef veðrið er ekki upp á marga fiska!
Þá var bara að hefjast handa :)
 Slatti af cementi blandað saman við vatn og hrært þar til allir kekkir hverfa.

Bakkinn klæddur með plastpoka 
og passaði að hafa hann ekki slettann til að fá "rákir"

Fyllti bakkann af steypunni og leyfði því að þorna yfir nótt.
Endurtók leikinn og beið.
Borðplöturnar eru tvær svo þolinmæðin var minn vinur þarna :)

Kellan sátt með útkomuna!
Lakkað yfir með lakki og mátað heima.
 Efri platan.....

....og sú neðri :)

Og fyrst ég var byrjuð þá henti ég steypu í nokkur egg. 

En nú er míns komin í gírinn þar sem sonurinn var að fá íbúð 
og mamman fær að láta sköpunargleði sína ráða ríkjum. 

Fylgist með :)





22 September 2016

Ég breytti Ikea þvottakörfu í borð!

Þið hafið kannski tekið eftir að ég óskaði eftir gömlum
 Ikea þvottakörfum sem ekki eru lengur framleiddar?
Heppnin var með mér og gat ég þá hafist handa.

Ég klæddi grindina úr pokanum og hreinsaði vel
 sem er mikið atriði til að lakkið haldist óskemmt.
Keypti grunn (Primer) lakk frá Slippfélaginu...
 ...og lakkaði eina umferð á alla grindina.

Að lokum spreyjaði ég tvær þunnar umferðir með svörtu lakki,
 líka frá Slippfélaginu.

Ég keypti límtrésplanka í Bauhaus. 
Einn panki sem er 3,8 cm á þykkt og 40 cm á breidd passar á þrjú borð.

Bæsaði með Viðar-bæs.
Þar sem ég valdi Antik-eikar lit þá þurfti ég mun fleiri umferðir
 en ef ég hefði valið svartan.

Að lokum lakkaði ég yfir tvær umferðir.

Ég er svo hrifin af þessu formi.
 Ekki ósvipað Valbjarkarkollinum sem ég sýndi ykkur um daginn :)

Þar sem mér áskotnaðist þrjú borð þá fá tvö að vera náttborð
 og það þriðja fær vonandi annað hlutverk sem ég sýni ykkur síðar
....þ.e.a.s ef ég finn eina þvottagrind í viðbót hehe :)





04 September 2016

Steyputilraun. Einu sinni er allt fyrst!


Stundum þá hef ég löngun til að skapa eitthvað 
en kem mér svo einhvern veginn ekki í gírinn.  
Svo þegar maður byrjar hugsar maður
 "hvers vegna byrjaði ég ekki miklu fyrr, þetta er svoooo auðvelt"!!! 

 Á síðasta ári fór ég og María Mist dóttir mín í Bauhaus.
Erindið var að kaupa sement.  
Eftir langa bið hugsaði ég með mér að það gæti nú ekki verið stórmál
 að finna einn sementspoka en öllu verra var að finna stóra innkaupakerru!  
Við dóum ekki ráðalausar heldur gripum næstu kerru, 
borguðum og keyrðum heim rígmontnar yfir árangrinum.

Ári síðar var komin tími til að steypa! HEHE ári seinna!
Sem betur fer tékkaði ég á innihaldi pokans.
Þá kom í ljós að ég hafði keypt sandpoka! 
Obb obb obb :(

 Á leið minni í bústað fyrir stuttu þá kom ég við í Bykó 
og keypti alvöru sement.

 Ég fékk kærasta minn í lið með mér til að blanda, hræra og setja í mót.

 Ljósakúplana keypti ég hingað og þangað á þessu ári sem var í bið.
Stærsti um 25 cm í þvermál, minnsti ca 14 cm.
Eftir að hafa hrært fjóra hluta sement og tvo hluta vatn
 var ekkert annað en að fylla kúplana og bíða yfir nótt :)

Næsta dag brutum við kúplana og í ljós komu 
fullkomnar þrjár kúlur.
Verkin heita Three balls!

Minnsta kúlan var lakksprautuð.

Hvað ætti ég að steypa næst?



31 August 2016

Hljómplötustandur (vinyl) DIY


Unglingsdóttir mín á plötuspilara frá My concept store.
Hún hefur sankað að sér nokkrum plötum 
en vantaði hentugt geymslupláss fyrir þær
 þar sem auðvelt væri að flétta þeim.  

Mamman var ekki lengi að strunsa í Ikea og....

...kaupa eitt stykki Nesna náttborð á 2350 kr.
En þar sem borðið er úr bamus sem ekki fellur að smekk
 þá var komið við á leið heim í Slippfélaginu og ....

keyptur einn svona spreybrúsi.
 

 Svo var bara preyjað úti á svölum í góða veðrinu.
Ég er að segja ykkur það að klukkustund 
eftir spreyjun gat ég sett borðið saman,
 svo fljót var málningin að þorna sem er frábær kostur!
 
Með því að sleppa glerplötunni sem á að vera ofan þá,
þá er komin hinn fínasti plötustandur :)

Skemmtilegt verkefni, ódýrt og auðvelt!