30 September 2014

Gamall ofn (pottofn)


Já ekki er nú öll vitleysan sagði kæró við mig í vor
 þegar ég sagði honum að ég hefði augastað á fallegum pottofni 
sem mig langaði til að hafa í stofunni, en ótengdan....bara skraut!

En eins og alltaf þá fylgir hann mér í hverri vitleysunni
 á eftir annari og við brunuðum af stað í sveitina með pottofn
 í skottinu til að láta sandblása hlunkinn. 
 Hann fengum við á slikk á Blandinu en við gerðum okkur engan
 veginn grein fyrir því að flykkið vegur einhver 80-100 kg. 
En það var ekki aftur snúið því þegar ég bít eitthvað í mig
 þá verð ég að framkvæma, fyrr verð ég ekki í rónni.


Svona var ofninn.....hvítur og margmálaður.


Hér er búið að sandblása hann, en við það fer öll málning af.

Ofninn stóð úti í allt sumar, þá ryðgaði hann hressilega,
 en það var akkúrat það sem ég var að leitast eftir :)

Eftir sumarið tók ég hann inn og við tók lökkun.
  Seinlegt verk, enda margir rimlar en þrælskemmtilegt :)
Ég notaði matt lakk.


 Falleg áferð eftir eina umferð svo ég lét hana bara duga.

 Svo fallegur...að mínu mati :)

Smellpassar!


28 September 2014

DIY. Bakkar úr myndarömmum.


Ef þið eigið Ribba myndaramma frá Ikea
 sem þið hafið ekki lengur not fyrir þá er lítið mál að breyta
 þeim í bakka eins og ég gerði núna um helgina. 

Ég tiltek sérstaklega þessa tegund af römmum því þeir eru djúpir,
 en auðvitað er hægt að nota aðrar tegundir....bara að dýptin sé næg.

Fyrsta verkið var að taka allt innvolsið úr, þá komu svona pinnar í ljós.

Fjarlægði pinnana með töng og.....

 

.....málaði rammana með grunnal, eina umferð.

Síðan pússaði ég með sandpappír nr. 120
 þar til svarti liturinn kom undan á nokkrum stöðum.

Klippti til efni sem ég átti til, 
annars er þetta líka til í blómabúðum og Litir og föndur.

 Ég freistaðist líka til að kaupa marmaralímmiðarúllu í Bauhaus.

 Ég á allan þann búnað sem þarf til bútasaums og kom
 það sér vel til að skera límmiðann eftir máli,
en auðvitað er hægt að nota bara reglustiku og skæri.

Fysti bakkinn tilbúinn.
Ég semsagt límdi límmiðann utan á og innan í, 
setti tvo liti af efninu ofan á botninn og glerið ofan á efnið.
Á þessum bakka sleppti ég að pússa nema efst, enda huldi límmiðinn allt. 

 Kemur vel út og marmaraáferðin eins og alvöru :)

 Þennan gaf ég í 50 ára afmælisgjöf núna um helgina.

 
Svartur bakki kemur líka vel út.
Í þannan klippti ég til scrap-pappír (stafirnir) sem ég átti.
Æðislegur til skírnargjafa fyrir stelpu.

 Það er endalaust hægt að leika sér með útfærslur og þessi fékk blúndu :)

 Blár einlitur pappír undir hvítu efni er geggjaður!

Allir samankomnir nema einn.....sá sem fékk nýtt heimili í gær :)

Jebb, þetta er ekki erfiðara en svo að ég "framleiddi"  8 stk. á hálfum degi 
og á enn nóg af römmum til að halda áfram :)









21 September 2014

Svart/hvítur sjónvarpsveggur


Það hefur verið á verkefnalistanum að poppa upp lúkkið á sjónvarpsveggnum.
Við vorum þó búin að taka þá ákvörðun að bíða með
 framkvæmdir þar til við fengjum okkur nýtt sjónvarp.
 En eitthvað hefur gamla tv. verið orðið lúnara en við héldum því það
 gaf upp öndina alveg upp úr þurru, okkur öllum að óvörum.
 Nú þá var bara að drífa sig í að versla nýtt tæki og endurnýja allt í kring um það :)

Veggurinn fyrir breytingar.
 Gamla tækið hékk á glerveggnum
 sem er laus eining keypt í Ikea fyrir nokkrum árum.

Niðurrif byrjað júhú!
Við ákváðum að kaupa ekki nýjann skáp heldur breyta þessum :)

 Slökkvararnir voru teknir niður og fluttir aftur á fyrri stað.

Flutningur afstaðinn.
 Hvít umgjörð og svartir takkar í takt við stílinn :)

Rammarnir í kring um græjurnar voru upphaflega hvítir,
 en ég teipaði þá með svörtu skrautlímbandi frá Ikea.
  Þá get ég alltaf tekið það af ef ég kæri mig um að breyta um lit.

Bætti við glerhillu sem ég fann í geymslunni 
og hækkaði skápinn með hærri fótum.

Eins og þið kanski tókuð eftir á fyrstu myndinni þá
 voru þrjú svört gler og eitt hvítt á veggeiningunni. 
Ég notaði þau ofan á borðið á skápnum.
  Eitt af hvorum lit enda svart hvítt þema :)

 Öllu var breytt, líka hátölurunum.  
Það á að vera hlíf framan á þeim,
 en kettirnir okkar notuðu þær sem klórur.
Til að hlífa keilunum fyrir skemmdum þá.....

 ......notaði ég svart tjull sem ég átti og ....

....sneið eftir máli.
 Hafði það reyndar um 2.cm breiðara og þræddi hringinn.

 Skrúfaði keilurnar af og strekkti efnið yfir
 hverja keilu með bandinu sem ég var búin að þræða áður.

Þá leit hátalarinn svona út. Vel varinn fyrir kisum.

Málaði í svörtu og hvítu

 Það sést ekki á myndunum en ég hraunaði neðri hvíta hlutann.
  Brýtur upp heildarlúkkið.

Hvít glerhilla frá Ikea til að halda uppi miðjuhátalarum.  
Ég boraði á bak við hann,
 tróð snúrunni inn í gifsvegginn og dró út neðst við gólfið.


 Nashyrningur sem ég fékk í Tiger heldur á orðum í 
gler-ramma sem ég gaf Kristjáni mínum.

 Kertastjaki frá Heima ofan á öðrum hátalarum og ....

 ....prófílmynd sem Kristján gaf mér á hinum.

Ég keypti sveigjanlegt ledljós í Ikea sem ég límdi á bak skúlptúrsins.

Veit að myndatakan skilar ekki sínu en lýsingin verður 
brjálæðislega falleg þegar tekið er að rökkva. 
Ekki skemmir það fyrir að hægt er að skipta um lit með einum takka.


 Við erum sátt eftir breytingarnar. 

Þetta erum við sem erum svona sátt hehe....kæró og ég :)